Blog Layout

Velferðin í Reykjavík

thorkellsig@gmail.com

Velferð íbúa í Reykjavík verður eitt af þeim málum sem ég vil sinna sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Rekstur velferðarmála er einn sá mikilvægasti og skiptir sköpum fyrir lífsgæði almennings í borginni, einkum eldra fólks og barna. Þetta er jafnframt umfangsmesti og kostnaðarsamasti útgjaldaliður borgarinnar næst á eftir skólamálum.
   

Sem formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins sem kosin var á síðasta landsfundi höfum við í nefndinni lagt mikla vinnu við ályktun í velferðarmálum sem að hluta til var tekin inn í ályktun flokksráðsfundar í september á síðast ári. Nú fæ ég tækifæri til að sinna þessum áhersluatriðum hjá Reykjavíkurborg og stuðla að samvinnu við ríkisvaldið í þessum málum. 


Forvarnir

Efla þarf forvarnir í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skólum. Styrkja þarf samvinnu almennings, frjálsra félagasamtaka og félags- og heilbrigðiskerfis og tryggja aðgengi að stuðningsúrræðum. Leggja ber áherslu á snemmtæka aðstoð á unga aldri og tryggja rétta þjónustu á réttum stað og koma þannig meira í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma, örorku og jafnvel sjálfsvíg.


Endurhæfing

Leggja ber áherslu á endurhæfingu og fjölga endurhæfingarúrræðum fyrir þá sem eru með skerta starfsorku vegna aldurs, sjúkdóma eða slysa. Allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið.  Hlutverk, verkaskipting og samvinna ráðuneyta þarf að vera betur skilgreind, en flest ráðuneyti koma að endurhæfingu í mismunandi miklu mæli.


Geðheilbrigðismál

Geðheilbrigðismál eru mjög vanræktur málaflokkur innan heilbrigðis- og velferðarmála bæði hvað varðar húsnæði og þjónustu. Um helmingur þeirra sem fara á örorku fyrir 35 ára aldur eru með geðsjúkdóm sem megin skýringu. Leggja bera mun meiri áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og snemmtæka íhlutun og efla þarf fyrsta stigs þjónustu heilsugæslunnar á þessu sviði. Huga þarf sérstaklega að málefnum barna og unglinga hvað þetta varðar. Th


Næsta spítalabygging

Fara þarf í staðarval á nýjum spítala á höfuðborgarsvæðinu. Í tengslum við heildaruppbyggingu Landspítala Miklar breytingar verða í velferðarþjónustu og samtímis þarf að huga að framtíðaraðstöðu fyrir aðra mögulega sjúkrahúsþjónustu og – byggingu á höfuðborgarsvæðinu á næstu áratugum. Reykjavíkurborg getur farið í greiningu á slíkri þörf í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir og fyrirtæki. Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk og heilsugæslan geta farið í nánara samstarf enda eiga ekki öll mál að lenda inn á skurðarborði Landspítala. 

Ekki er ásættanlegt til framtíðar, m.a. vegna öryggishagsmuna, fjölbreytni og sérhæfingar fyrir starfsfólk og sjúklinga, að eingöngu eitt ríkisrekið sjúkrahús sé starfandi á höfuðborgarsvæðinu og það þurfi að sinni allri sjúkrahúsþjónustu.


Málefni eldri íbúa

Endurskoða þarf þjónustuþörf við eldri borgara varðandi almennt heilsufar.  Samþætta má betur heimahjúkrun, félags- og tómstundaþjónustu auk sálgæslu og annars sem getur dregið úr einsemd aldraðra. Heilsugæslan þarf að nálgast eldra fólk fyrr á lífsleiðinni og miða þjónustu og úrræði við þarfir hvers og eins. Nokkurs konar millistig þarf að vera til milli hjúkrunarheimila og að dvelja heima.

 

Málefni fólks með skerta starfsorku

Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða bætur almannatrygginga í heild og horfa til þess að öryrkjar njóti þess og hafi ávinning af því að afla sér tekna og aðrir sem það ekki geta geti lifað mannsæmandi lífi. Fara þarf fram starfsgetumat sem taki tillit til greiðslu örorkulífeyris og hægt væri að gera samninga sem gefa öryrkjum hvata til vinnu sem tekur mið af starfsgetu hvers og eins.


Húsnæðismál

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öruggt íbúðahúsnæði hvort sem það er í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Það er velferðarmál og ein af grunnþörfum mannsins og leggja ber áherslu á fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði.   e



Einnig þarf að stuðla að því að myndast geti virkur leigumarkaður eins og þekkist víðast hvar í nágrannalöndum. Þannig verður til valkostur og valfrelsi enda vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja valkosti og frelsi einstaklingsins til að ákveða ráðstöfun sinna fjármuna.


Nýsköpun og nýjungar í velferðarþjónustu

Nýsköpun í velferðarþjónustu og nýtingu heilbrigðistækni og stafrænna lausna getur aukið hagkvæmni og bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Opinberir aðilar þurfa að fjárfesta mun meira á þessu sviði ekki síður en á sviði húsnæðismála og almennra tækjakaupa.


Útflutningstekjur af heilbrigðis- og líftækni

Síðast en ekki síst eru margvísleg tækifæri í auknum útflutningstekjum sem felast í þekkingu og sérstöðu Íslands á sviði heilbrigðis- og líftæknivísinda. Á Íslandi eru starfandi nokkur öflug heilbrigðis- og líftæknifyrirtæki, lyfjaframleiðslufyrirtæki í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Þetta gæti orðið mjög kröftug útflutningsgrein og skilað samfélaginu miklum launatekjum og gjaldeyristekjum.

 

Þorkell Sigurlaugsson

thorkellsig@gmail.com


Deila

Share

Share by: