Blog Layout

Þjónusta Reykjavíkurborgar við hreyfihamlað fólk og elstu íbúana

thorkellsig@gmail.com

Ég hef lengi látið mig varða málefni hreyfihamlaðra með aðild að Sjálfsbjörg og sem formaður Sjálfsbjargarheimilisins 2008-2014. Árið 2015 var Ferðaþjónusta fatlaðra komin í mikið óefni þegar hún var flutt yfir til Strætó.


Reykjavíkurborg réði ekki við þetta

Ég var þá í vinnuhóp ásamt fulltrúum Þroskahjálpar, Strætó, Reykjavíkurborgar o.fl. til að koma ástandinu í betra horf. Hef ekki fylgst með því að undanförnu, en aksturþjónusta fatlaðs fólks fékk nýlega nafnið Pant akstur. Nýir litir og nýtt nafn. „Rebranding“ eins og sagt er á góðri íslensku.


Eftir áratuga umkvartanir þurfti stóreignamann í hjólstól til að opna betur augu og veski Reykjavíkurborgar fyrir ýmsu sem var ábótavant í aðgengismálum í miðborginni og styðja hana fjárhaglega til að ráðast í verkefnið. Borgin var römpuð upp á framkvæmdahraða sem hvorki fyrr eða síðast hefur sést í tíð núverandi borgarstjórnar.

Reynsla mín og annarra er ávallt hin sama. „Ekkert um okkur án okkar!“


Flókið kerfi og lítið samráð

Sama gildir um þarfir aldraðra íbúa. Þeim fer hratt fjölgandi og mikilvægt að náin tengsl séu milli aldraðra íbúa borgarinnar og borgarkerfisins. Oft vantar mikið upp á það einkum hvað varðar aðgengi að upplýsingum og þjónustu. Kerfi Reykjavíkurborgar er flókið og mikið skortir upp á samráð og gott aðgengi að upplýsingum. Hvaða réttindi hef ég, hvar fær ég upplýsingar? Hvaða réttindi hefur fólk sem þarf á þjónustu borgarinnar að halda eins og aldraðir og fatlaðir? Þyrfti ekki að koma upp nokkurs konar þjónustugátt eða þjónustufulltrúum eins og sumar fjármálastofnanir hafa gert. Hér þarf að endurskoða hlutina frá grunni með það fyrir augum að greiða fyrir samskiptum, auðvelda aðgengi að þjónustu og losa um símabiðraðir. Biðraðir fólks í viðkvæmri eða erfiðri stöðu eftir grunnþjónustu eru ekki í lagi!


Borgin er þjónustustofnun, sem þarf að huga sérstaklega vel að því að veita íbúum skjóta og skilvirka þjónustu og aðstoð. Opna þarf greiðari leið fyrir fólk að upplýsingum innan borgarkerfisins og borgarstarfsmenn að leita til íbúanna með upplýsingar og samráð svo að þjónustan komi að réttu gagni.


Þorkell Sigurlaugsson, óskar eftir 2. sæti á prófkjörslista

Sjálfstæðisflokksins 18-19. mars. n.k.

Deila

Share

Share by: