Núverandi meirihluti borgarstjórnar í Reykjavík hefur vanrækt atvinnutengsl algerlega — fyrirtæki flýja borgina og verkefni eigna- og atvinnuþróunar hafa verið færð undir skrifstofu borgarstjóra og týnst þar, auk þess sem Reykvíkingar og fyrirtæki hafa orðið fyrir barðinu á áratugafrestun Sundabrautar. Það er kominn tími á nýjan meirihluta, sem kemur með nýtt verklag og öfluga framtíðarsýn í borgarstjórn.
Á næstu vikum fram að prófkjörsdegi mun ég fjalla sem víðast um helstu stefnumál mín sem borgarfulltrúa sem býð mig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Eitt af þeim málum er að stöðva fyrirtækjaflóttann úr Reykjavík.
Marel fór frá Reykjavíkurborg - atvinnulífstengsl lengi verið í skötulíki
Lítið hefur verið gert til að koma í veg fyrir að fyrirtæki hverfi úr borginni. Fyrsta dæmið sem ég man eftir og þekki vel er Marel, en ég var varaformaður í stjórn fyrirtækisins, þegar það hóf undirbúning flutnings úr Höfðabakka í Reykjavík árið 1996 í Molduhraun í Garðabæ. Þar fékk Marel nógu stóra lóð undir nýjar 12.000 fermetra nýbyggingu og höfuðstöðvar sínar en húsið var fljótlega stækkað enn frekar. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/306039/ Heilmikið tjón fyrir Reykjavíkurborg að missa þetta ört vaxandi alþjóðlega fyrirtæki til nágrannasveitarfélagsins, en hjá Marel starfa nú mörg hundruð manns í Garðabæ og 7.000 manns um allan heim í 30 löndum. Eitt mikilvægasta fyrirtæki Íslendinga og lang verðmætasta íslenska fyrirtækið í Kauphöll Íslands. Það tókst að halda Háskólanum í Reykjavík árið 2006, en ég þurfti að vekja borgina til umhugsunar um mikilvægi skólans og tryggja skólanum lóð til að halda honum í Reykjavík. Ekkert var búið að hugsa fyrir því.
Dæmin eru alltof mörg
Ég vil nefna nokkur nýleg dæmi um fyrirtækjaflóttann úr höfuðborginni. Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins flutti til Kópavogs árið 2016, höfuðstöðvar Íslandsbanka fluttu til Kópavogs í lok sama árs og Tryggingastofnun ríkisins til Kópavogs árið 2019. Starfsemin í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut flutti einnig í Kópavog árið 2019. Hafrannsóknarstofnun fór 2020 til Hafnarfjarðar, ýmis heilbrigðisfyrirtæki í Urðarhvarf í Kópavog árin 2019-2021 og Vegagerðin til Garðabæjar 2021. Þá fyrirhugar Tækniskólinn nú flutning til Hafnarfjarðar svo og Icelandair og Víkingbátar, öflugt og ört vaxandi fyrirtæki sem framleiðir allt upp í 30 tonna smábáta úr trefjaplasti. Það ætlar árið 2023 að flytja af Kistumel í Reykjavík til Hafnarfjarðar. Það nýjasta er svo flutningur ILVA sem fer í Kauptún í Garðabæ. Þó að þetta séu aðeins örfá dæmi af mörgum, bendir fátt til þess að vilji standi til þess hjá núverandi borgarstjóra eða meirihluta borgarstjórnar að snúa þessari þróun hratt og vel við.
Skipta fyrirtækin borgina engu máli?
Mikilvægt er fyrir Reykjavíkurborg að rækta tengsl við atvinnulífið. Ekki bara með fallegum glærukynningarfundum öðru hvoru í Ráðhúsinu heldur með daglegum tengslum. Frá 2017 og reyndar mörg ár þar á undan er búið að vera að undirbúa uppbyggingu á Ártúnshöfða, svokallaðan Borgarhöfða, en lítið gerst fyrr en skrifað var undir samning um verkefnið 2019. https://www.vb.is/frettir/mikil-uppbygging-artunshofda/155378/ Mikil hægagangur er enn á verkefninu og er þessi þróunarreitur á Ártúnshöfða hugsaður allt of langt inn í framtíðina. Þessi seinkun er eitt af mörgum dæmum um tafir, oft fyrir einhverja Borgarlínu sem bíða á eftir. Þarna hefði verið hægt að byggja 250.000 fermetra af íbúðum og atvinnuhúsnæði og algjörlega ástæðulaust að bíða eftir Borgarlínu, en stór hluti af skýringunni á að vera að þvinga fólk sem mest í almenningssamgöngur. Með öflugum ráðgjöfum hafa allir innviðir verið þarna fullmótaðir og löngu hægt að byrja. Að sjálfsögðu kvarta ekki þróunaraðilar og lóðaeigendur ekki opinberlega því þeir eru
eins og aðrir t.d. verkfræðistofur og ráðgjafafyrirtæki háð góðvild Reykjavíkurborgar. Frábært verkefni Borgarhöfði en gengur hægt í höndum núverandi meirihluta. https://klasi.is/borgarhofdi/
Síðast en ekki síst fylgir fyrirtækjum oft fólk sem vill búa nærri vinnustaðnum, ekki hvað síst vegna sívaxandi umferðatafa; þetta eru skattgreiðendur sem greiða heimasveitarfélagi sínu útsvar. Reykjavíkurborg er áreiðanlega ekki með lista yfir ung vaxtarfyrirtæki, sem eru á höttunum eftir hentugu framtíðarhúsnæði í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Fyrirtæki í örum vexti geta ekki treyst á einhvern þéttingarreit á miðborgarsvæðinu eða jöðrum þess sem verða kannski tilbúinn einhvern tíma eftir 10-15 ár.
Fáum fleiri fyrirtæki til Reykjavíkur og stöðvum flóttann.
Áratugatafir Sundabrautar segja svo ekki síður sína sögu um vanræksluna í byggðaþróun Reykjavíkavíkurborgar, sem hefur tafið fyrir þróun á tugþúsundum íbúða- og atvinnulóða í Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi. Svipaða sögu er að segja um umfangsmikla þróunarmöguleika í landi Keldna og Keldnaholti. Þá mætti koma mun meiri íbúabyggð fyrir í Úlfarsársdal. Það er bara ekki í boði sem stendur. Frestun Sundabrautar er þannig að mörgu leyti eitt stærsta hneykslið í langri skandalsögu núverandi meirihluta. Það má svo e.t.v. hafa til marks um einbeittan „brotavilja“ gegn Sundabrautinni, ef svo má að orði komast, að allar aðgerðir núverandi meirihluta hafa fram að þessu miðast við, að koma þessari framkvæmd út af kortinu, með einum eða öðrum hætti.
Að ofansögðu er ljóst, að tryggja verður Reykvíkingum breytta og betri tíma í atvinnulífstengslum eftir næstu kosningar. Það er kominn tími á nýjan meirihluta, sem kemur með nýtt verklag og öfluga framtíðarsýn í borgarstjórn. Koma verður Reykjavík aftur í fremstu röð og að því vil ég vinna. Í mínum huga er fátt mikilvægara en að fólkið sem hér býr og fyrirtækin sem hér vilja starfa finni að nærveru þeirra sé óskað innan borgarmarkanna.
Þorkell Sigurlaugsson