Blog Layout

Ég boða breyttar og betri áherslur fyrir Reykvíkinga

thorkellsig@gmail.com

Vegna góða undirtekta og mikillar hvatningar gef ég kost á mér í 2. sæti í prófkjöri  Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þann 12. mars næstkomandi. Rekstur og stjórnun  höfuðborgarinnar er vaxandi áhyggjuefni. Reykjavíkurborg hefur dregist aftur úr í uppbyggingu  íbúða, atvinnulífstengsl hafa verið vanrækt og samskipti og almennri þjónustu við borgarbúa  hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Núverandi meirihluta skortir alla sýn til framtíðar á þróun  borgarinnar til næstu áratuga. 

Ég býð mig fram í góðum hóp frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins sem vilja mynda sterka liðsheild  og nýjan borgarstjórnarmeirihluta skipuðu fólki með mismunandi reynslu og bakgrunn. Ég kem  með nýja reynslu inn í borgarstjórn eftir áratuga störf við stjórnun stærri og smærri fyrirtækja,  sprotafyrirtækja og þróun og stjórnun Háskólans í Reykjavík. Slík reynsla tel ég mikilvæga og eigi  erindi 2. sæti lista flokksins í Reykjavík 

Ég boða nýja stjórnarhætti og vil leggja sérstaka áherslu á að hlusta á íbúa og atvinnurekendur við stefnumörkun og þróun borgarinnar. Framundan eru miklar áskoranir í samgöngu- og  skipulagsmálum, málefnum ungs fólks, fjölskyldumálum og atvinnumálum. Þá eru mennta- og  velferðarmálin viðvarandi verkefni að ógleymdum fjármálum borgarinnar sem hafa verið í ólestri  árum saman. 


Leiðarljós okkar eiga að byggja á eftirfarandi 10 stefnumiðum. 


1. Breyta verður áherslum í skipulagsmálum og stjórnun borgarinnar. Draga verður úr  forræðishyggju og taka aukið tillit til sjónarmiða þeirra sem búa og starfa í borginni. 


2. Stöðva verður flótta fyrirtækja og fólks frá borginni. Setja þarf nýtt byggingarland strax í  uppbyggingu samhliða hófstilltri þéttingu byggðar. Mikilvæg fyrirtæki og íbúar hafa verið  að flýja borgina undanfarin ár vegna skorts á hagkvæmum og ódýrum íbúðum og  byggingarlandi. 


3. Bæta verður aðstöðu og þjónustu við fyrirtæki í öllum greinum atvinnurekstrar. Öflug  fyrirtæki eru undirstaða atvinnulífs, tekjuöflunar og velferðar hjá borgarbúum. 


4. Skóla- og íþróttamál verði í hávegum höfð. Skólar verða að þjóna einstaka hverfum og  börnum, án myglu og án þess að löng bið verði eftir íþróttaaðstöðu eða leikskólaplássi. 


5. Bæta verður þjónusta við eldri borgara. Sinna verður málefnum eldri borgara af mun  meiri framsýni en hingað til, samhliða fyrirsjáanlegri fjölgun þessa ört vaxandi  þjóðfélagshóps. Byggja þarf upp betri aðstöðu til forvarna, endurhæfingar og hreyfingar  og sem hentar þessum aldurshópum. Um þessa þætti þarf að hafa samstarf við ríkisvaldið.  


6. Burt með biðraðir í velferðarmálum. Velferðarmál skipta höfuðborgarbúa miklu máli og  á því sviði þarf að hafa náið samstarf við stjórnvöld. Stærsta baráttumálið á þessu sviði  verður að losna við biðraðirnar sem einkenna þessa mikilvægu þjónustu á nær öllum  sviðum. 


7. Lækka verður álögur á þá sem búa við kröppust kjör. Þá verður að endurskoða  velferðarkerfið heildstætt og losa um fátæktargildrur innan þess t.d. varðandi  fasteignagjöld o.fl. Lækka þarf fasteignaskatt og það á ekki hvað síst við um þann vaxandi fjölda eldri borgara sem býr við fátækt m.a. vegna slakra lífeyrisréttinda, engra launatekna  eða fjármagnstekna. 


8. Snúa verður vörn í sókn í húsnæðismálum Uppbygging húsnæðis hefur verið vanrækt og  sérstaklega ódýrt húsnæði fyrir yngra fólk og tekjulága. Úr því verður bætt á  kjörtímabilinu. 


9. Endurskoða verður samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins milli ríkis og  sveitarfélaga. Gagnger endurskoðun er nauðsynleg á nokkrum mikilvægum þáttum og  einnig tryggja að framkvæmdir, tíma-, og fjárhagsáætlanir samnings ríkis og sveitarfélaga  standist. Flýta verður framkvæmdum fyrir bifreiðar, hjól og gangandi og ekki hægt að bíða  í 15-20 ár eftir fullkláraðri svokallaðri „Borgarlínu“. Allir samgöngumátar eru nauðsynlegir.  Betri ljósastýring, mislæg gatnamót, rjúfa heimatilbúnaðar umferðatafir eru fyrsta  verkefni. Samgöngur fyrir alla ferðamáta eru í óviðunandi ástandi í dag og verða þegar í  enn alvarlegra ástandi á næstu árum, nema einnig komi einfaldari og fljótlegra lausn á  „Borgarlínu“. 


10. Taka verður fjármál borgarinnar föstum tökum. Síðast en ekki síst þarf að bæta  fjármálarekstur borgarinnar og snúa við þeirri skuldasöfnun sem hefur viðgengist allt of  lengi í boði vinstri meirihluta borgarstjórnar. Laga þarf einnig þá ósanngjörnu skiptingu  sem hefur verið að þróast hvað varðar framlög ríkisins til dýrra málaflokka sem  sveitarfélög hafa tekið yfir. 


Skiptum með okkur verkum í nánu samtali við borgarbúa 

Mikilvægt er að borgarfulltrúar skipti með sér verkum í borgarmálum. Ráðast verður strax í  sérstakt átak í nánu samtali við íbúa, félagasamtök og fyrirtæki á grundvelli ofnagreindra 10  stefnumála. 


Flótti fyrirtækja frá höfuðborginni 

Ég vil í þessari grein staldra sérstaklega við atvinnumálin. Stöðva þarf flótta fyrirtækja úr  höfuðborginni. Fyrirtæki vilja vera þar sem tiltölulega rúmt er um þau, góðar aðkomuleiðir og  aðgengi fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Bílastæðaskortur fyrir starfsfólk og viðskipavini hefur  hrakið meðalstór og stór fyrirtæki og stofnanir til nágrannasveitarfélaganna. 

Nokkur nýleg dæmi. Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins flutti til Kópavogs árið 2016.  Höfuðstöðvar Íslandsbanka fluttu til Kópavogs í lok sama árs. Tryggingastofnun ríkisins til  Kópavogs árið 2019 og starfsemin í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut flutti í Kópavog árið 2019.  Hafrannsóknarstofnun fór 2020 til Hafnarfjarðar, ýmis heilbrigðisfyrirtæki í Urðarhvarf í Kópavog  árin 2019-2021 og Vegagerðin til Garðabæjar 2021. Tækniskólinn fyrirhugar flutning til  Hafnarfjarðar svo og Icelandair innan skamms og Víkingbátar, öflugt og stækkandi  framleiðslufyrirtæki smábáta flytur af Kistumel í Reykjavík árið 2023 til Hafnarfjarðar. Eitt elsta  dæmið sem ég man eftir var þegar Marel flutti af Höfðbakka árið 2000 með um 170 starfsmenn  og nokkra tugi erlendis. Þá var ég í stjórn félagsins. Þá bauðst ekkert viðunandi í Reykjavík og  félaginu hefur litið ágætlega í Garðabæ, núna lang verðmætast fyrirtæki í Kauphöll Íslands og  með 7.000 starfsmenn og starfsstöðvar í 30 löndum erlendis. 

Þetta er óviðunandi staða á vakt Dags B. Eggertssonar. Þróa þarf nú þegar landrými og þjónustu  við smá og stærri atvinnufyrirtækja og hefði reyndar þurft að gerast mörgum árum fyrr. Til að svo sé þarf að sýna frumkvæði og rækta tengslin við atvinnulífið svo sjá megi betur fyrir þarfir til  framtíðar litið. 


Halda þarf áfram stuðningi við nýsköpun og fjárfestingar 

Eitt af því sem núverandi borgarmeirihluti hefur sinnt ágætlega er áhersla á lóðaframboði fyrir HÍ  og HR og hvetja til uppbyggingar á stúdentaíbúðum og vísindagarðasvæði í Vatnsmýrinni. Borgin  þarf á hinn bóginn að styðja betur við nýsköpun og fjárfestingar í innviðum og frumkvöðlastarfsemi eigi Reykjavík að verða sú öfluga háskólaborg sem drifkraftur 4.  iðnbyltingarinnar og atvinnusköpunar 21. aldar krefst. 

Fram kom í nýlegum tölum um fjárfestingar sjóða í íslensku nýsköpunarumhverfi að af 26  fjárfestingum á síðasta ári var eingöngu ein úthlutun til frumkvöðlateyma sem konur stofnuðu og  þrjár voru til blandaðra teyma. Konum skortir ekki áhugann, en eiga erfiðara með fjármögnun og  ýmislegt í umhverfinu gerir þeim erfiðara um vik. Borgin getur hjálpar til í þessu efni. 


Aðför að atvinnufyrirtækjum í borginni 

Margvíslegar ráðstafanir núverandi meirihluta borgarstjórnar hafa komið sér illa fyrir  atvinnurekstur í borginni. Slakar almenningssamgöngur, ónóg bílastæði og þröng aðkoma hefur  reynst mörgum fyrirtækjum kostnaðarsamar. Sýnu verri eru þó afleiðingar sífellt meiri  umferðartafa. Fyrirtæki verða að reka fleiri sendi- og/eða þjónustubíla til að sinna viðskiptavinum  og geta ekki sinnt flutningum sem skyldi á álagstímum dagsins. Tafakostnaður og aukinn rekstrar og fjárfestingakostnaður veldur tuga milljarða viðbótarkostnaði á ársgrundvelli fyrir almenning  og fyrirtæki í borginni. 


Byggðaþróun til framtíðar 

Við þróun borgarsamfélags þarf að finna jafnvægi á milli of dreifðar byggðar og of þéttrar. Of  dreifð byggð getur aukið umferðartafir. Halda þarf aftur af umferðartöfum með öllum tiltækum  ráðum skipulags- og umferðarhönnunar. Það hlýtur að vera megin markmið borgarstjórnar og  sérfræðinga á hennar vegum að nýta tiltækt fjármagn á eins skilvirkan hátt í þessu skyni og  mögulegt er. 

Reykjavík hefur dregist aftur úr, en hefur gífurleg tækifæri til þróunar byggðar, ekki hvað síst með  Sundabraut yfir í Geldinganes, Álfsnes og Kjalarnes þar sem í heildina litið má byggja tugþúsundir  íbúa. Einnig möguleikar til frekari byggðar í þéttbýli á landi Keldna, Keldnaholti og í Úlfarsársdal.  Framtaksleysi við lagningu Sundabrautar er ein megin skýring þess dráttar sem orðið hefur á  þessu þróunarverkefni allt frá aldamótum og valdið tugmilljarða aukakostnaði fyrir ekki aðeins  höfuðborgina heldur landsbyggðina alla. 

Breyttir og betri tímar bíða Reykvíkinga eftir næstu kosningar. Það er kominn tími á nýtt verklag  og framtíðarsýn fyrir höfuðborgina; við viljum koma Reykjavík aftur í fremstu röð. Varla er hægt  að taka þátt í skemmtilegra verkefni en að vinna að því að gera borgina betri fyrir íbúa,  fjölskyldufólk og fyrirtækin. Ég er reiðubúinn að vera hluti af öflugri liðsheild Sjálfstæðisfólks og  þjóna borgarbúum með þá þekkingu og reynslu sem ég hef fram að færa. 


Þorkell Sigurlaugsson


Deila

Share

Share by: