Blog Layout

Horfum á tækifærin í kjölfar COVID kreppu

thorkellsig@gmail.com

Horfum á tækifærin í kjölfar COVID kreppu 

Hagkerfið hér á landi er mjög auðlindadrifið. Frá miðri síðustu öld hafa þrjár auðlindir verið  megin drifkraftar hagvaxtar. Í fyrsta lagi auðlindir sjávar, í öðru lagi orka fallvatna og jarðvarma  og í þriðja lagi náttúrufegurð Íslands. Farsælt stjórnmálaástand lengst af og svo hugvitsöm þróun  þessara atvinnugreina og dugnaður landsmanna hefur skipt verulegu máli. 

Nú eiga allar þessar auðlindir undir högg að sækja á sama tíma. Tekjuöflun dregst saman og  jafnvel bregst alveg eins og í ferðaþjónustu. Sjávarútvegur líður fyrir tekjusamdrátt erlendis og  orkufyrirtækin bera sig illa vegna sölutregðu og fallandi afurðaverð. Þótt þetta komi vonandi sem  mest til baka, þá er nýsköpun í þessum greinum og ekki síður nýsköpun með nýjum  atvinnugreinum mikilvægur þáttur í stefnumótun atvinnulífsins. 



Stefna í útflutnings- og markaðsráðmálum. 

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á nýsköpun í atvinnulífinu í öllum greinum. Útflutnings- og  markaðsráð og Íslandsstofa sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs, hafa mótað stefnumarkandi áherslur í útflutningsáherslum þar sem sjálfbærni er leiðarljósið. Sjá  https://stefnumotun.islandsstofa.is/forsida/island-er-tengt-sjalfbaerni/. Þessar áherslur snúa að sex þáttum. 

• Orka og grænar lausnir 

• Hugvit, nýsköpun og tækni 

• Listir og skapandi greinar 

• Ferðaþjónusta 

• Sjávarútvegur 

• Sérhæfð matvæli og náttúruafurðir 

Á nánast öllum þessum sviðum þarf að leggja áherslu á hagvöxt og verðmætasköpun sem byggir  á auknum útflutningstekjum, þar sem nýsköpun og sjálfbærni skiptir höfuðmáli. Nýsköpun getur  snúist um aukið markaðsstarf, byggja upp sterkari vörumerki, auka gæði afurða, bæta framleiðni  í framleiðslu, nýta auðlindir með arðbærari hætti og bæta menntun svo nokkur dæmi séu nefnd.  Síðast en ekki síst þarf að nýta hugvitið betur. 


Hugvitið er sjálfbærast allra auðlinda 

Hugvitið þarf ekki að vernda eða spara. Hugvitið minnkar ekki heldur eykst þegar af því er tekið.  Hugvitið er sjálfbærast allra auðlinda, dregur að sér nýja þekkingu, á sviði menntunar og  nýsköpunar og þá einnig einstaklinga erlendis frá sem hafa áhuga á að starfa á sama sviði í okkar  samfélagi. 

Þegar ráðist hefur verið í nýsköpun, sem tengist hugviti og skapandi greinum, þá verða áföllin  minni eins og atvinnuleysi nú á tímum COVID kreppu. Fyrir Íslendinga er þetta sérlega mikilvægt  vegna þess hvað vægi auðlindanotkunar er hátt í sjávarútvegi, orkunýtingu og ferðaþjónustu.  Auka þarf fjölbreytni og færa áherslur í menntun, atvinnuþróun og nýsköpun í sterkari greinar  fjórða hagkerfisins. Þar verða ný atvinnutækifæri til sem koma í stað fækkunar starfa í  hefðbundnum atvinnugreinum náttúruauðlinda.



Fjölmörg tækifæri á sviði heilbrigðis- og líftæknimála. 

Á síðasta ári hefur greinarhöfundur ásamt fleirum meðal annars Samtökum iðnarins og  Íslandsstofu verið að undirbúa stofnunar heilbrigðis- og líftækniklasa sem gæti stuðlað að  aukinni nýtingu tækifæra sem við höfum á þessu sviði. Þekking Íslendinga hefur verið mikil í  tengslum við heilbrigðismenntun, rekstur Landspítala og fleiri heilbrigðisstofnana og síðan  fyrirtækja á sviði erfðatækni og lyfjaþróunar. Smæð landsins, góð menntun starfsfólks í  heilbrigðisvísindum víða um heim og sterk alþjóðleg tengsl skapa einnig fjölmörg tækifæri. 

Það hefur verið litið á heilbrigðis- og velferðarmál sem kostnaðarlið á fjárlögum. Framunda  virðist vera nánast óstöðvandi þörf fyrir aukin útgjöld, en síður horft til þess hvernig aukin  tækniþekking m.a. þróun stafrænna miðla og fjórða iðnbyltingin getur lækkað kostnað og aukið  hagkvæmni í þessum geira. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala hefur bent á nokkur dæmi um ný viðhorf sem hafa komið  upp í tengslum við COVID-19 baráttuna. Sett var upp COVID göngudeildarþjónusta og í raun var  um fjargöngudeildarþjónustu að ræða. Þetta getur haft áhrif í framtíðinni hvað varðar þörf fyrir  göngudeildarhúsnæði, enda oft og tímum ekki þörf á að mæta á staðinn. Einnig hefur 

heimsóknabann aðstandenda kallað á möguleika á fjarfundabúnaði fyrir inniliggjandi sjúklinga og  einnig fyrir eldri borgara á hjúkrunarheimilum. Sjá má fyrir sér fjölskyldumiðstöðvar á  sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum tengdar fjarfundabúnaði. Fyrir framan okkur eru stórkostleg  tækifæri til atvinnusköpunar og útflutningstekna fyrir samfélagið þegar horft er til vandamála  heimsins og tækniþróunar á þessu sviði. 

Um þessi verkefni getur heilbrigðis- og líftækniklasi snúist. Að auka samstarf, byggja upp sterkara  tengslanet og vera suðupott nýrra verkefna og fyrirtækja. Þetta hefur tekist vel með sjávarklasa  og tækifæri bláa hagkerfisins þar sem Þór Sigfússon hefur lyft grettistaki. Ef skilgreina má  heilbrigðis- og líftækni sem rauða hagkerfið þá eru ekki síður tækifæri þar. Sjávargeirinn,  orkugeirinn, ferðageirinn og fjármálageirinn eru með sína klasa, en með sambærilegu samstarfi  má styrkja má verulega stöðu heilbrigðis- og líftæknimála á þessu sviði. Útflutnings- og  markaðsráð mat aukin útflutningstækifærin á þessu sviði einna mest af öllum greinum næsta  áratuginn. Óplægður akur, sem tími er til kominn að nýta. 

Nefna má nokkur dæmi um verkefni og fyrirtæki sem hafa verið í þróun á þessu sviði og sum náð  umtalsverðum árangri. 


Fjárfestingasjóðir og frumkvöðlafyrirtæki 

Eitt af mikilvægum ”tækjum” fjármálamarkaðarins sem styðja við nýsköpun eru svokallaðir  áhættufjármagnssjóðir (e. venture capital funds eða VC sjóðir). Þetta hefur verið kallað á  íslensku ”vísissjóðir” og dæmi um slíkan sjóð er vísissjóðurinn Crowberry 

(www.crowberrycapital.com) sem er rekinn af rekstrarfélaginu Crowberry Capital GP í eigu  þeirra Heklu Arnardóttur, Helgu Valfells, Jenný Ruth Hrafnsdóttir. Crowberry I er 4 milljarða  króna íslenskur vísissjóður (e: VC eða Venture Capital sjóður) stofnaður árið 2017 með 10 ára  líftíma. Hann er um 80% í eigu lífeyrissjóða. Nýfjárfestingatímabil sjóðsins er 5 ár og annar sjóður  á þeirra vegum hugsanlega í farvatninu. 

Crowberry fjárfestir í nýjum tæknifyrirtækjum á Norðurlöndum enda virða nýsköpun og tækni og  það hugvit sem þar er beitt ekki landamæri heldur fylgja þekkingarklösum og verða oft til við samvinnu þeirra. Það sama á við um vísisfjárfesta, bestum árangri ná þeir sem starfa meðfram  þeim bestu á heimsvísu og hafa metnað til þess að byggja upp stór, alþjóðleg tæknifyrirtæki. 

Sjóðurinn hefur nú fjárfest í 12 tæknifyrirtækjum og mun fjárfesta í 2-3 fyrirtækjum til viðbótar.  Þar af er 25% á sviði heilbrigðistækni, 25% í leikjaðnaði og 17% í fjártækni. Annað er á  hefðbundnari hugbúnaðar- og tæknilausnum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. 

Það er athyglisvert undir þeim heimsfaraldri sem nú herjar þá eru þessi fyrirtæki almennt ekki að  verða fyrir neikvæðum áhrifum eða fækka starfsfólki enda stafrænar lausnir í heilbrigðistækni  aldrei verið eins þarfar og nú og tölvuleikir eru svo sannarlega nýtt form afþreyingar sem styttir  fólki stundir við núverandi aðstæður. 

Erlendir meðfjárfestar Crowberry í eignasafni sjóðsins eru 13 talsins. Heildarfjárfesting  Crowberry í dag er um 1,5 milljarður króna og samhliða henni hafa erlendir fjárfestar fjárfest um  3 milljarða í eignasafninu. 

Hér að neðan er farið yfir nokkur af þeim fyrirtækjum sem hafa sprottið upp á undanförnum  árum og eru oft 


Kara Connect 

Eitt af þeim fyrirtækjum sem Crowberry hefur fjárfest í er Kara Connect 

(www.karaconnect.com). Sérfræðingar í heilbrigðis- velferðar og menntakerfinu geta nýtt Kara  Connect til þess að eiga í samskiptum við skjólstæðinga sína í gegnum myndfundi á netinu. Að  auki færir Kara Connect sérfræðingum stafræna vinnustöð sem einfaldar allan rekstur bæði á  netinu og í raunheimi. 

Kara Connect hugbúnaðurinn virkar sem stafræn vinnustöð og yfirlitskerfi fyrir stofur hjá  meðferðaraðilum og sérfræðingum á mismunandi sviðum. Hugbúnaðurinn sér um bókanir,  greiðslur, dulkóðun og geymslu gagna með tilliti til persónuverndar fyrir bæði sérfræðinga og  skjólstæðinga. Kara Connect er GDPR vottuð lausn fyrir sérfræðinga sem umbreytir þeirri  þjónustu sem þeir veita. 

Kara Connect hefur fimmtánfaldað fjölda nýrra viðskiptavina frá febrúar til mars mánaðar á  þessu ári, flestir þeirra eru erlendis og hefur fyrirtækið náð talsverðri fótfestu þar þrátt fyrir  dræmari og erfiðari uppgang á Íslandi. Hefur framkvæmdastjórinn Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir  m.a. flutt erlendis þess vegna. Erfiðlega gekk að sögn Þorbjargar að þróa stafrænnar lausna í  samstarfi við landlæknisembættið og meðan svo var sköpuðu þær ekki útflutningsverðmæti fyrir  Ísland. Kara Connect er dæmi um félag sem hefur fengið styrki frá Rannís, fjárfestingu frá  Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, en Crowberry hefur að þeirra sögn lent í beinni samkeppni við  Landlæknisembættið sem er bæði eftirlitsaðili og þróunaraðili á þessu sviði. Hér er mikil þörf á  að skerpa áherslur og hlutleysisstefnu. 


Stjörnu Oddi 

Fyrirtækið Stjörnu-Oddi (www.star-oddi.com) framleiðir veirurannsóknarmæla fyrir dýr.  Fyrirtækið hefur starfað í þessum rannsóknargeira síðan 1993, en áður í þróun farsíma. Í leitinni  að bóluefni gegn COVID-19 er helst stuðst við rannsóknir á mörðum, enda öndunarfærin álik  manna. Hefur fyrirtæki vart undan að framleiða mæla til notkunar hjá erlendum ríkisstofnunum,  lyfjafyrirtækjum, háskólum og rannsóknarstofnunum.

Í öndunarfærarannsóknum, eins og á COVID-19, eru helst stundaðar rannsóknir á mörðum.  Samkvæmt lögum verða prófanir á dýrum að hafa átt sér stað áður en hægt er að prófa á fólki.  Mælarnir, sem eru litlir, eru settir í dýrin áður en þau eru sýkt með veiru. Með þessum mælum  er hægt að fá tugþudundir mælinga úr líkama dýrsins, svo sem hitastig, rafboð hjartans og fleira. 

Hjá stjörnu-Odda starfa 23, þar af einn í Barcelona og annar í Stockhólmi. Sigmar Guðbjörnsson  framkvæmdastjóri og stofnandi félagsins hefur af ótrúlegri eljusemi unnið að uppbyggingu  félagsins. Hann gæti bætt við starfsfólki en getur það ekki í bili vegna samkomubannsins um  þessar mundir. Sigmar telur að faraldurinn sem ríður nú yfir muni hafa mikil áhrif á sviði  veirurannsókna, eins og fram kom í viðtali við Sigmar í Fréttablaðinu nýlega. Stuðningur  Tækniþróunarsjóðs og skattaívilnanir vegna þróunarkostnaðar hefur komið sér vel fyrir Stjörnu Odda. 


3Z 

3Z (www.3z.is) sprettur upp úr rannsóknarstofu í Háskólanum í Reykjavík þar sem gerðar voru  svefnrannsóknir. Notaðir voru fiskar í staðinn fyrir rottur eða mýs og í ferlinu voru smíðuð ýmis  tæki, þróaður hugbúnaður og búnir til ferlar til að mæla mjög stóra hópa lítilla zebrafiska í einu. Þá  vaknaði sú hugmynd hvort ekki væri hægt að nota þessa kraftmiklu ferla í skipulagða lyfjaleit. Í staðinn fyrir að einblína á svefn var farið að skoða aðra sjúkdóma. 

Karl Ægir Karlsson, frumkvöðull og stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins 3Z hefur lengi unnið að þessu  verkefni en svo virðist sem nú séu tímamót í sögu 3Z sem hefur undanfarið sótt fram í  markaðssetningu og fengið rífandi viðbrögð lyfjafyrirtækja. 

Þegar hafa verið þróuð sjúkdómalíkön í fiski sem líkja eftir Parkinson, MND, flogaveiki og  svefntruflunum, og verið er að þróa fleiri sjúkdómamódel, til dæmis fyrir ákveðna geðsjúkdóma og  fleiri taugahrörnunarsjúkdóma, sársauka og taugaverki. 

Margir kostir eru við að nota fiska. Niðurstöður rannsóknanna eru jafn gagnlegar og þegar notaðar  eru mýs eða rottur, en tími og kostnaður er ekki sambærilegur. Karl vandist þó á að nota spendýr í  rannsóknum í sínu námi. Þegar hann kom heim frá Bandaríkjunum úr námi var ekkert rottulab hér  og engin leið að fjármagna slíkt. Þar sem fiskar eru með miðtaugakerfi taldi Karl geta notað þá til  

rannsókna auk þess sem lítið kostaði að viðhalda þeim. 

Hjá 3Z starfa sjö starfsmenn og nokkrir nemar, frá tveimur upp í sex, sem koma frá erlendum  háskólum, úr HR og Háskóla Íslands. Unnin er mjög þverfagleg vinna og mikilvægt að hafa  sérfræðinga á mörgum sviðum, vélaverkfræðinga, forritara, erfðafræðinga, taugavísindamenn og  fólk á markaðssviði. Einnig er samstarfið gott við aðra skóla og stofnanir. Smásjáraðstaða fæst hjá  Háskóla Íslands, raðgreiningar gerðar hjá Íslenskri erfðagreiningu og vefjasýni eru greind hjá  Keldum. En þetta er það sem þarf til að nýsköpunarfyrirtæki geti þrifist,“ segir Karl. 

Fyrstu árin, frá 2010 til 2014, var félagið ekki með neina viðskiptavini heldur vann eingöngu að því  að gera prófanir og safna gögnum. Árið 2014 tók félagið að prófa 1.200 þekkt lyf sem eru þegar á  markaði til að sjá hvernig niðurstöður fengjust en það voru samaburðargögn sem nauðsynlegt var  að safna til að halda áfram. Árin 2015-2017 voru viðskiptavinir orðnir fjórir til fimm, en 2017 var byrjað að vinna japanskt lyfjafyrirtæki við rannsóknir á lyfjum fyrir MND og það er stærsta verkefni  fyrirtækisins núna. Félagið hefur fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði og það hefur komið á óvart hversu gríðarleg  eftirspurnin er eftir þjónustu fyrirtækisins. Fyrirtækið hefði aldrei komist á koppinn ef ekki hefði  verið fyrir góðan stuðning Háskólans í Reykjavík, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins,  Tækniþróunarsjóðs og þeirra einkafjárfesta sem komu inn með þekkingu á ólíkum sviðum. „Það er  afar mikilvægt að hafa skólann sem sinn bakhjarl á þessum upphafsárum.“ 


Kind.app 

Kind app (www.kind.app) er einfaldur hugbúnaður sem þróaður var í Svíþjóð og er notaður af  sjúklingum sem samskiptatæki við lækna og með fjölmörgum gagnlegum upplýsingum fyrir  sjúklinga með tiltekinn sjúkdóm. Kind.app hefur verið notað fyrir sjúklinga sem hafa farið í  gegnum líffæraskipti, ófrískar konur og ýmsa sem þurfa að fara í gegnum ákveðið prógramm.  Sjúklingurinn fær þá reglulega tilkynningar um ýmislegt eins og hvenær á að koma í skoðun,  upplýsingar um mataræði, eyðublöð sem þarf að nota, myndir og myndbönd og örugg  sjúkraskrárgögn o.fl. 

Framkvæmdastjóri og einn eigenda fyrirtækisins, Charlotta Tönsgård kom til Íslands á síðasta ári  í tengslum við málþing landsamtakanna „Spítalinn okkar“ og kynnti appið og vakti það mikla  athygli. Crowberry Capital hefur fjárfest í fyrirtækinu en það er nú í öflugri sókn inn á  Evrópumarkað. 


Sidekickhealth 

Fleiri dæmi má nefna um gagnlegan hugbúnað sem tengist heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisfyrirtækið  Sidekickhealth hefur í samstarfi við CCP og fleiri aðila þróað nýtt kerfi sem meðal annars gefur  COVID-19 sjúklingum færi á að senda upplýsingar um líðan sína til yfirvalda. Kerfið verður tekið í  notkun í þrepum hjá heilbrigðisyfirvöldum og gæti skipt miklu máli við að létta álagi af  heilbrigðiskerfinu. Hugsunin er ekki ólík því sem er hjá Kind.app.  

Dagsdaglega þróar Sidekickhealth stafrænar heilbrigðismeðferðir, þar sem tækninni er beitt til  þess að bæta meðferð sjúklinga með ýmsa langvinna sjúkdóma. Á mettíma þróaði Sidekick, í  samvinnu við fjölmarga aðila, kerfi sem gefur COVID-19 sjúklingum færi á að senda upplýsingar um  líðan sína í gegnum smáforrit, sem og vefgátt sem leyfir heilbrigðisstarfsfólki að meta hvernig  sjúkdómurinn er að þróast. Einnig býður kerfið upp á bein samskipti milli sjúklings og  heilbrigðisstarfsfólks. Greint var frá þessu í Fréttablaðinu þann 3. apríl sl. og þetta lýsir vel þeim  tækifærum sem felast í nýsköpun á sviði heilbrigðistækni þar sem stafrænar lausnir koma við sögu.  https://www.frettabladid.is/frettir/throudu-kerfi-til-ad-fylgjast-med-covid-19-sjuklingum/ 


NeckCare 

Íslenska fyrirtækið NeckCara Holding ehf, selur veflægar greiningar og endurhæfingarlausnir á  hreyfiskaða. Búnaðurinn frá NeckCare er sá eini sinnar tegundar í heiminum og getur hann mælt  með mikilli nákvæmni hreyfingu á hálsi og baki. NeckSmart geri sjúkraþjálfurum mögulegt að  fylgjast með því hvort sjúklingar séu að sinna endurhæfingaráætlun, s.s. heimaæfingum sem  sjúkraþjálfarinn setur þeim fyrir, auk þess sem mögulegt er að bjóða upp á fjarsjúkraþjálfun. 

Félagið hefur fengið styrk frá bandaríska flughernum. Um 80% af þeim flugmönnum sem hafa  lokið störfum hjá bandarískum flughernum hafa hlotið krónískan hálsskaða sökum starfa sinna  fyrir flugherinn. Um 360 milljarða dollara kostnaður fellur til árlega í Bandaríkjunum vegna  stoðkerfisvanda og þar af er um 130 milljörðum eytt í meðferðir á bak- og hálsskaða,“ segir Kim De Roy, einn af eigendum NeckCare Holding. Kim kom nýlega inn í eigendahóp fyrirtækisins, en  áður starfaði hann sem forstöðumaður rannsóknar og þróunar hjá Össuri. Þorsteinn Geirsson, er  einn eigenda og framkvæmdastjóri NeckCare. All ítarlega var fjallað um þetta fyrirtæki í  Viðskiptablaðinu þann 8. apríl síðastliðinn og einnig um mitt síðasta ár og í desember þegar  fyrirtækið gerði samstarfssamning við Háskóla Íslands á sviði eflingar rannsókna í hreyfivísindum  við læknadeild HÍ. Enn eitt dæmið um möguleika Íslendinga eins og reyndar annarra þjóða á sviði  heilbrigðistækni. 


Stöndum saman með sjálfbærni að leiðarljósi 

Hér hafa verið nefnd einvörðungu örfá dæmi um fyrirtæki sem hafa þróað upplýsingakerfi, hugbúnað eða tækjabúnað sem tengist heilbrigðistækni og tengist annað hvort íslensku  heilbrigðiskerfi eða íslenskum fjárfestum. Stærri fyrirtæki eins og Össur, Alvogen, Alvoteck og  Decode þekkja allir, en svo má nefna Genis, Kerecis Niblegen, Nox Medica, Oculis, Orf líftækni,  Oxymap, Mentis Cura, Zymetech og mörg fleiri. Með samstarfsvettvang á borð við heilbrigðis- og  líftækniklasa gætu þessi fyrirtæki og önnur áreiðanlega unnið saman og verið jarðvegur fyrir  frekari grósku á þessu sviði. Tækifærin eru alls staðar og þá sérstaklega til vaxtar erlendis. 

Fjölmörg dæmi eru um fyrirtæki sem hafa verið að spretta upp á undanförnum árum og eiga góða  möguleika að vaxa og skapa miklar tekjur og atvinnu fyrir þúsundir Íslendinga innanlands og  erlendis. Fjölbreytni í háskólastarfi hér á landi samhliða viðvarandi og vaxandi framhaldsmenntun  og atvinnuþáttöku Íslendinga erlendis hefur aukið slagkraft atvinnulífs og vísindasamfélags. 

Mikill skilningur og stuðningur Þórdísar Kolbrúnar nýsköpunarráðherra og núverandi ríkisstjórnar við nýsköpun og frumkvöðlastarf hefur varðað leiðina til framtíðar. Frumvarp um  frumkvöðlasjóðsins Kríu með 2,5 milljarða króna ráðstöfunarfé er dæmi um aukna áherslu  stjórnvalda á þessu sviði. Krían er sá fugl sem ferðast lengst frá landinu þegar hún fer í burtu.  Hún er eldsnögg og á sífelldu iði og amstri og nafngiftin hæfir því öflugum frumkvöðlasjóð.  Heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í vísissjóðum verður einnig aukin þannig að þeir megi eiga allt  að 35% í vísissjóði í stað 20%, sem mun vonandi hleypa enn meira súrefni í nýsköpunarstarfið.  Allt mun þetta efla enn frekar vísisfjárfestingar og byggir grunn að öflugra umhverfi  vísisfjárfestinga hér á Íslandi. Það er því full ástæða til að horfa með bjartsýni til sjálfbærrar  nýsköpunar á Íslandi að lokinni þeirri alheimskreppu sem kennd verður við COVID. 

Deila

Share

Share by: