Blog Layout

Tillögu Friðjóns Friðjónssonar f.h. okkar Sjálfstæðismanna í Borgarstjórn í gær 7.3.2023 um átak í uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk var hafnað

thorkellsig@gmail.com

Það eru mörg mál í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem snerta Reykjavíkurborg. Margt af því tengist eldra fólki og bættri aðstöðu og þjónustu við þá. Sjá tillögu XD og höfnun meirihlutans sem voru mikil vonbrigði. 


Friðjón Friðjónsson hafði frumkvæði að tillögu Sjálfstæðismanna sem var svohljóðandi á Borgastjórnarfundi 7.3.2023.

 

Borgarstjórn samþykkir að skipa stýrihóp um áframhaldandi þróun og uppbyggingu á lífsgæðakjörnum fyrir eldri Reykvíkinga. Stýrihópnum verði falið skoða þá lífsgæðakjarna sem nú eru starfræktir í borginni og þá sem eru fyrirhugaðir. Einnig skal stýrihópurinn meta hvernig hægt er að styðja betur við fjölbreytta húsnæðiskosti eldra fólks. Nauðsynlegt er einnig að leggja mat á framtíðareftirspurn húsnæðis eldra fólks og þá lýðfræðilegu þróun sem er framundan til næstu 25 ára. Þá skal hópurinn leggja fram hugmyndir eða tillögur að því hvar í borgarlandinu væri hægt að skipuleggja ný svæði fyrir lífsgæðakjarna.


Erindisbréf hópsins, sem þrír kjörnir fulltrúar skulu skipa, skal kveða á um að samráð verði haft við félög eldri borgara og þá aðila sem sinna þessari starfsemi núna, þá skulu velferðar- og umhverfis- og skipulagssvið styðja við starf stýrihópsins. Stýrihópurinn skal skila niðurstöðum og tillögum eigi síðar 1. september 2023.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23030035


Tillögunni var vísað frá með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.


Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu með bókun miklum vonbrigðum með frávísun meirihlutans á tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stýrihóp um þróun og uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldri Reykvíkinga. Tillagan miðaði að því að færa á svið borgarstjórnar húsnæðismál eldri Reykvíkinga, veita pólitíska forystu og draga fram hvernig lýðfræðileg þróun kallar á aðgerðir. Þá miðaði tillagan að því að reyna að leggja mat á framtíðareftirspurn eftir ólíkum búsetuvalkostum eldra fólks. Samkvæmt mannfjöldaspám Hagstofunnar mun eldri Íslendingum fjölga hlutfallslega mikið á næstu árum og áratugum. Eldri Reykvíkingar eiga skilið að þeim bjóðist góðir og fjölbreyttir húsnæðiskostir í öruggu umhverfi með greiðu aðgengi að heilsutengdri þjónustu, félagsskap og stuðningi við að búa heima hjá sér og sjá um eigið heimili fram eftir ævinni. Meirihlutinn tók þá ákvörðun að hafna samvinnu og samstarfi í borgarstjórn um húsnæðismál eldri Reykvíkinga og vísaði í 10 mánaða gamla ákvörðun um auglýsingu um samstarfsaðila í þessum málaflokki. Sú auglýsing hefur enn ekki birst, enda meirihlutinn verklaus í öllum málum sem bæta þjónustu við borgarana.


Dæmigert fyrir meirihlutann að geta aldrei tekið undir tillögur Sjálfstæðismanna.


Ég var formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins s.l. 4 ár, sem var samþykkt án breytinga og mótatkvæðalaust á landsfundinum. Til fróðleiks er hér birt þessi ítarlega ályktun sem samþykkt var samþykkt á landsfundinum dagana 4.-6. nóvember 2022. Þar er mikið fjallað um hagsmuni eldri borgara.



Ályktun velferðarnefndar á landsfund XD 4.-6.nóvember 2022




Almennar áskoranir og markmið


  • Velferðarmál eru umfangsmesti útgjaldaflokkur sveitarfélaga og ríkissjóðs en jafnframt einn sá mikilvægasti fyrir lífsgæði almennings í landinu.  Áskoranir og tækifæri eru fjölmörg á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu og mikilvægt að bæta þjónustu samhliða aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri. Sjálfstæðisflokkurinn ætti að hafa forystu og beita sér meira í þessum málaflokki.


  • Fjölga þarf starfsfólki í heilbrigðisþjónustu bæði í almennri grunnstarfsemi svo sem umönnun og almennri heilbrigðisþjónustu en einnig sérhæfðum heilbrigðisstarfsmönnum. Veruleg tækifæri eru  til úrbóta í samstarfi og samþættingu milli ríkis og sveitarfélaga svo og milli einstakra þjónustueininga ríkisrekstrar og sjálfstætt starfandi fyrirtækja og heilbrigðisstarfsmanna.


  • Bæta þarf menntun og fjölga nemendum í heilbrigðisgreinum og fylgja eftir möguleikum á t.d. námslínum í einfaldara sjúkraliða- og hjúkrunarfræðinámi. Gera þarf störf við aðhlynningu áhugaverðari og bæta aðbúnað og laun starfsfólks, m.a. þegar horft er til alhliða heimaþjónustu sem er mun ódýrari en þjónusta á sjúkrahúsi eða hjúkrunarheimili. Án aukinnar góðrar heimaþjónustu kemur fólk sífellt veikara inn á hjúkrunarheimili og sjúkrahús og aðstandendur eru að bugast vegna skorts á viðeigandi stuðningi. 


  • Með nýrri heilbrigðis- og velferðarstefnu má auka gæði og skilvirkni þjónustunnar. Sú stefna sem unnin  var árið 2019 er að takmörkuðu leyti í takt við stefnu Sjálfstæðisflokksins.  Þar þarf að leggja aukna áherslu á nýsköpun og fjölbreytt rekstrarform með sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsemi sem getur létt verulega undir með opinberum heilbrigðisstofnunum, stytt biðlista og aukið hagkvæmni í rekstri.  


  • Ýmsar áskoranir og tækifæri felast í því að þjóðin eldist og heilsufar batnar; - lengja má starfsaldur og  gera starfslok sveigjanlegri. Frítekjumark verði endurskoðað svo og jaðaráhrif tekjutenginga og tekjuskatts vegna þessa. Það mun efla hagvöxt, bæta velferð og hafa ýmis jákvæð áhrif.


Meginverkefni og áhersluatriði á sviði velferðarmála.


1.   Efla þarf forvarnir og heilsueflingu í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skólum. Stuðla ber að lýðheilsuátaki á landsvísu með mælanlegum markmiðum í samvinnu almennings, heilbrigðiskerfisins og frjálsra félagasamtaka. Hvetja þarf almenning og frjáls félagasamtök að koma á  teymisvinnu milli félags- og heilbrigðiskerfis til að tryggja aðgengi að stuðningsúrræðum fyrir alla aldurshópa. Leggja ber áherslu á snemmtæka íhlutun frá unga aldri og koma í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma, örorku og jafnvel sjálfsvíg.

 

2.   Móta stefnu í sjúkrahúsþjónustu landsmanna. Landspítali (LSH) þarf sem þjóðarsjúkrahús að geta sinnt sínu skilgreinda hlutverki á sviði lækninga, rannsókna og háskólakennslu. LSH hafi í forgangi stærri og flóknari aðgerðir og meðferð, en verði  auk þess leiðandi í viðbrögðum við farsóttum, bráðaþjónustu  og öryggismálum. Til að LSH geti gegnt þessu forystuhlutverki þarf að gera honum kleift að draga úr annarri almennri sjúkrahúsþjónustu m.a. með því að efla samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir, sérfræðilækna og fyrirtæki. Stytta þarf þann tíma sem sjúklingar dvelja að óþörfu á bráða- og aðgerðardeildum spítalans og efla þá þjónustu sem tekur við og leysa þar með stóran hluta fráflæðivandans. 


Þrátt fyrir uppbyggingu LSH við Hringbraut þarf samtímis að huga að framtíðaraðstöðu fyrir aðra sjúkrahúsþjónustu  á höfuðborgarsvæðinu. Farið verði í greiningu á framtíðarþörf og staðarvali fyrir slíka sjúkrahúsþjónustu og byggingu í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir og fyrirtæki. Keldnalandið kemur þar sterklega til greina og má ekki útiloka það svæði. Eðlilegt er að slíkt sjúkrahús, verði ekki ríkisrekið heldur rekið með þjónustutengdri fjármögnun frá hinu opinbera, á sama hátt og háskólar og ýmsar aðrir þjónustuaðilar fá fjárframlög frá ríkinu þótt þeir séu ekki ríkisreknir.


3.   Efla þarf fjölbreyttara rekstrarform heilbrigðisþjónustu. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að í landinu sé öflugur hópur sjálfstætt starfandi sérfræðilækna,  annars heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisfyrirtækja. Nýta þarf betur möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum innan heilbrigðisþjónustunnar með áherslu á skýrar gæðakröfur og skilvirkni samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi. Flýta þarf innleiðingu  DRG flokkunarkerfis (Diagnosis Related Groups) vegna fjármögnunar sjúkrahússtarfsemi í samræmi við lög um sjúkratryggingar. Halda skal áfram að bjóða út starfsemi heilsugæslunnar og annarrar heilbrigðisþjónustu til að auka hagkvæmni og skilvirkni. The


4.   Sjúkratryggingar Íslands. Ein mikilvægasta þjónustustofnun á sviði heilbrigðismála er Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sem sér um innkaup heilbrigðisþjónustu, samninga við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttir, s.s. sérfræðilækna, sálfræðinga, tannlækna, tannréttingasérfræðinga, sjúkraþjálfara, öldrunarþjónustu og umsjón með hjálpartækjaþjónustu. Úrbóta er þörf á ýmsum sviðum svo sem varðandi samningagerð og kaup á þjónustu, gjaldskrárgerð og eftirlit. Stofnunin fékk alvarlegan áfellisdóm frá Ríkisendurskoðun árið 2018. Ekki hefur verið gætt að samræmingu og sanngirni varðandi gjaldskrár og eðlilegum hækkunum og endurskoðun samninga hefur ekki verið fylgt eftir. Tannréttingastyrkir barna hafa ekki hækkað í mörg ár. Mikilvægt er að skoða hvernig hægt sé að koma til móts við fjölskyldur barna sem þurfa á tannréttingum að halda, með auknum styrk, þannig að mismunun eigi sér ekki stað vegna efnahags foreldra.


5.   Þjónusta við landsbyggðina. Stórbæta þarf þjónustu við landsbyggðina með bættu aðgengi að endurhæfingu, almennri heilbrigðisþjónustu og -starfsfólki, sérstaklega sérfræðilæknum og með fjarþjónustu. Auk þess bæta tækjabúnað heilsugæslu og sjúkrahúsa til bráðaþjónustu út um land svo sem með bráðagreiningartækjum og bæta stafræna þjónustu. Ríkið tryggi rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana úti á landi á sama tíma og bæta þarf tengingu og samstarf milli LSH og annarra heilbrigðisstofnana um land allt.


Jafna þarf aðstöðu einstaklinga sem búa úti á landi hvað varðar kostnaðarþátttöku í ferða- og dvalarkostnaði. Tryggja þarf komu sérfræðinga út á land með samvinnu við LSH og sjálfstætt starfandi sérfræðilækna svo landsbyggðarfólk þurfti ekki að ráðast jafn mikið í kostnaðarsöm ferðalög til Reykjavíkur. Mun hagkvæmara væri að tryggja reglulega sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni og minnka þannig niðurgreiddan ferðakostnað. Sama gildir um aðstöðu langveikra barna er varðar fylgdarmenn. Mikilvægt er að fæðingarþjónusta sé til staðar sem næst heimabyggð vegna öryggis móður og barns.  Efla þarf sjúkraflug og tryggja að slík þjónusta sé ætíð til taks í hinum dreifðu byggðum með styttri viðbragðstíma en þekkist í dag.


6.   Málefni eldra fólks. Endurskoða þarf þjónustuþörf við eldra fólk varðandi almennt heilsufar þar á meðal tannheilsu. Auka þarf skilvirkni heildarþjónustunnar og samþætta heimahjúkrun, félags- og tómstundaþjónustu auk sálgæslu og annars sem getur dregið úr einsemd aldraðra. Heilsugæslan þarf að nálgast eldra fólk fyrr á lífsleiðinni og miða þjónustu og úrræði við þarfir hvers og eins. Fjölga þarf þjónustuíbúðum og auka fjölbreytileika varðandi búsetuform, en einnig tryggja aðgengi að hjúkrunarheimilum þegar sjálfstæð búseta er ekki lengur möguleg.  Boðið verði upp á úrræði við hæfi svo að eldra fólki verði gert kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði. Horfa þarf til nýsköpunar og nýta ber betur sjálfstætt starfandi fyrirtæki á þessu sviði og tryggja betur sjálfsákvörðunarrétt eldra fólks og fjárhagslegt sjálfstæði þess.


Aðstæður eldra fólks og öryrkja fara ekki að öllu leyti saman í almanna-tryggingakerfinu. Endurskoða þarf lífeyrissjóða- og almannatryggingakerfi m.t.t. hagsmuna eldra fólks Starfslok verði sveigjanleg og fólki gert kleift að starfa í fullu starfi eða hlutastarfi miðað við áhuga og færni en ekki eingöngu við aldur og tímasett starfslok. Margir hópar ljúka ekki starfsævinni með rík lífeyrisréttindi og nýta þarf skattkerfið annars vegar til að styðja við þessa hópa og auka svigrúm til atvinnuþátttöku án skerðinga, nema að um sé að ræða verulegar tekjur. Hætta ber að líta á greiðslur almannatrygginga sem bætur heldur stuðningskerfi sem byggir á réttindum. Þá þarf að draga úr skerðingu ellilífeyris vegna lífeyristekna og annarra tekna hvaðan sem þær koma.   


7.      Málefni fólks með skerta starfsorku.  Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða bætur almannatrygginga í heild og horfa til þess að öryrkjar hafi ávinning af því að afla sér atvinnutekna, svo og draga úr skerðingum vegna annarra tekna sem þeir kunna að hafa svo sem vegna eigin sparnaðar.  Afnema þarf krónu á móti krónu skerðingu og hækka viðmiðið til að tryggja lágmarkstekjur og auka hvata til sjálfsbjargar.


Endurskoða þarf starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins (TR) sem taki tillit til greiðslu örorkulífeyris þannig að hægt verði að gera samninga sem gefa öryrkjum hvata til vinnu sem tekur mið af starfsgetu hvers og eins. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, leiði slíka vinnu í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.


8.      Málefni fatlaðs fólks á vegum sveitarfélaga. Almennt hefur tilflutningur þessa málaflokks frá ríki til sveitarfélaga skapað margvíslega erfiðleika m.a. í tengslum við fjármögnun þjónustunnar. Endurskoða þarf frá grunni fjármögnun sveitarfélaga/þjónustusvæða á þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Finna þarf leiðir til þess að sveitarfélög/þjónustusvæði geti sinnt þjónustu sinni eins og lög kveða á um. Mikilvægt er að endurskoða í því samhengi framlög til málaflokksins og hlutfall af útsvari sveitarfélaga sem rennur inn í málaflokkinn, þar sem í dag standa framlög ekki undir þjónustuþörf.


Auka ber sjálfstæði fatlaðra einstaklinga og þau sem búa við mikla skerðingu hafi val um að stýra sinni þjónustu sjálf m.a. með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA).


9.   Endurhæfing. Leggja ber áherslu á endurhæfingu og fjölga endurhæfingar-úrræðum fyrir þau sem eru með skerta starfsorku vegna sjúkdóma eða slysa. Öll sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið. bo

Leitast þarf við að bjóða upp á fjölbreytt úrræði í heimabyggð, en um leið þarf að þróa úrræði þvert á sveitarfélög til að gæta jafnræðis í þjónustu og stuðla að hagkvæmni. Tryggja þarf að þau sem ekki fá endurhæfingu á opinberri stofunun, geti sótt þá þjónustu á almennum markaði með greiðsluframlagi frá ríkinu þegar slíkt á við.


10.  Geðheilbrigðismál.  Þessi málaflokkur hefur verið vanræktur innan heilbrigðis- og velferðarmála. Um helmingur þeirra sem fara á örorku fyrir 35 ára aldur eru með geðsjúkdóm sem megin ástæðu. Leggja ber meiri áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og snemmtæka íhlutun og efla þarf fyrsta stigs þjónustu heilsugæslunnar á þessu sviði. Huga þarf sérstaklega að málefnum barna og unglinga og þau hafi greiðan aðgang að félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum og sálfræðingum í grunnskólum. Endurskoða þarf húsnæðismál geðdeildar LSH og undirbúa nýja byggingu þar sem staðarval og allt umhverfi og aðstaða henti betur skjólstæðingum, aðstandendum þeirra sem og starfsfólki.


Líta þarf á fíkn sem heilbrigðisvanda en ekki löggæsluvanda. Tryggja þarf meðferð og endurhæfingu fíknisjúklinga og auðvelda þeim endurkomu í samfélagið. content


11.  Húsnæðismál. Að hafa þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum mannsins. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði hvort sem það er í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði.

Miklu máli skiptir að aðgerðir hins opinbera á sviði húsnæðismála, stuðli að nægu framboði húsnæðis, svo sem með auknu framboði byggingalóða. Auðvelda þarf ungu fólki að eignast eigið íbúðarhúsnæði, en einnig stuðla að því að myndast geti virkur leigumarkaður eins og þekkist víða í nágrannalöndum. Þannig verður til valkostur og valfrelsi enda vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja frelsi einstaklingsins til að ákveða ráðstöfun sinna fjármuna. 


12.  Nýsköpun og nýjungar í velferðarþjónustu. Styðja þarf vel við fjárfestingar vegna nýsköpunar í velferðarþjónustu og nýtingu heilbrigðistækni og stafrænna lausna. Slíkt eykur hagkvæmni og bætir þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Opinberir aðilar þurfa að fjárfesta á þessu sviði ekki síður en á sviði húsnæðismála og almennra tækjakaupa.


13.  Útflutningstekjur af heilbrigðis- og líftækni. Margvísleg tækifæri eru í auknum útflutningstekjum af þekkingu og sérstöðu Íslands á sviði heilbrigðis- og líftæknivísinda. Á Íslandi eru starfandi nokkur öflug heilbrigðis- og líftæknifyrirtæki í fremstu röð á sínu sviði í heiminum auk þess sem heilbrigðiskerfiskerfið býr yfir vel menntuðu starfsfólki með víðtæka þekkingu.


Með samstarfi heilbrigðisstofnana og hugvitsdrifinna fyrirtækja á sviði heilbrigðis- og líftækni má byggja upp nýja atvinnustarfsemi þar sem hugvit, nýsköpun og vel menntað starfsfólk eykur hagvöxt og útflutningstekjur og stuðlar samhliða að aukinni hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins hér á landi.   

Samantekt og framtíðarsýn


Samantekt og framtíðarsýn.


  • Sjálfstæðisflokkurinn vill móta nýja velferðar- og heilbrigðisstefnu á breiðum grunni með það markmið að heilbrigðis-og velferðarkerfið á Íslandi verði í fremstu röð.  Til þess að svo verði þarf að nýta bæði tækifæri í opinberum rekstri og einkarekstri með framtíðarsýn sem tekur til menntunar heilbrigðisstarfsfólks, tækniþróunar og þarfa sjúklinga. Efla sérstaklega forvarnir, endurhæfingu og geðheilbrigðisþjónustu.


  • Endurskoða þarf lífeyris- og almannatryggingakerfið m.t.t. hagsmuna eldra fólks og öryrkja. Aðstæður eldra fólks og öryrkja fara ekki saman og því þarf að skoða breytingar á greiðslum til þessa hópa sérstaklega.  Koma þarf til móts við þá sem búa við kröpp kjör og skapa svigrúm til atvinnuþátttöku eldra fólks og öryrkja hvort heldur í hlutastarfi eða fullu starfi án verulegrar skerðingar. Einnig þarf að tryggja sveigjanleg starfslok.


  • Nýta þarf einkaframtakið mun betur á sviði heilbrigðisþjónustu og fjárfestinga. Sjúkratryggingar Íslands verða að rækja betur sitt hlutverk og sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk þarf að hafa fleiri en einn valkost þegar kemur að sjúkrahússtarfsemi og almennri heilbrigðisþjónustu. Ganga þarf frá samningum við rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu og skapa traust og vinnufrið. Langir biðlistar og tvöfalt heilbrigðiskerfi er ekki ásættanlegt því allir eiga að njóta góðrar þjónustu án tillits til efnahags eða þjóðfélagsstöðu.


  • Landsbyggðarfólk þarf að búa við samgönguöryggi og aðgengi að heilbrigðis- og velferðarþjónustu eins og best verður á kosið.  Þróa þarf tækni og tækifæri til að nýta rafrænar/stafrænar lausnir. Samningar þurfa að liggja fyrir um kaup á þjónustu við sjúkrastofnanir og sérfræðinga á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir alla landsmenn og jafnræði skal ríkja á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins.


  • Nýsköpun í  velferðar- og heilbrigðisþjónustu mun stuðla að aukinni hagkvæmni og gæðum í rekstri og tækifærum til aukinna útflutningstekna. Við menntun heilbrigðisstarfsfólks, vísindarannsóknir og fjárfestingu er þörf á fjölbreyttum rekstrarformum og fleiri atvinnutækifærum, m.a. til að auka áhuga ungs fólks. Virkjun bæði einkaframtaks og ríkisreksturs á sviði nýsköpunar, fjárfestinga og reksturs í heilbrigðis-, velferðarþjónustu mun stuðla að auknum útflutningstekjum og hagvexti. 

 

Deila

Share

Share by: