Í þættinum Sprengisandur þann 26, mars ræddi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar við Kristján Kristjánsson. Kristján fannst mér full neikvæður í sínum spurningum, en það er svo sem ekki óeðlilegt miðað við neikvæða niðurstöðu úr samanburði íslensku háskólanna og annarra á Norðurlöndum. Áslaug Arna ráðherra reyndi að útskýra vissar skýringar á þessu. Yfirskriftin á fréttinni eftir viðtalið „Ráðherra gefur háskólum síðustu 20 ára falleinkunn“.. https://www.visir.is/k/edc50e23-6d03-4697-93b8-6b8a0ed68bb4-1679827285356
Vissulega er þetta falleinkunn ef borið er saman við árangur okkar í
fótbolta eða öðrum íþróttum. Hún nefndi réttilega að HÍ sé í 501-600 sæti yfir
bestu háskóla heims, fyrir nokkrum árum í 250-300 sæti og hafði fyrir nokkrum
árum sett sér markmið um að vera einn af 100 bestu. Að mínu mati var það líklega
alltaf óraunhæft markmið, en vissulega hefur slakari árangur í rannsóknum á
sviði heilbrigðisvísinda dregið HÍ niður þar sem Landspítala hefur skort húsnæði og mannskap til að sinna rannsóknum og kennslumálum sem háskólasjúkrahús. Sumir hafa bent á óskynsamlegt mat á tækifærum í ráðningu starfsfólks sbr. grein eftir Birgi Jónsson hér að neðan, sem vel má vera að sé samt vegna óánægju vegna þess að fram hjá honum eða kunningja hans hafi verið gengið.
Ráðherra sagði að stærstu háskólar okkar HÍ og HR séu ekki í góðri samkeppnisstöðu miða við þá háskóla sem við berum okkur saman við. Háskólarnir séu að skrapa botninn og af 37 háskólum á Norðurlöndum þá er HR neðstur og HÍ í 32 sæti.
Sjá: https://www.visir.is/g/20232394771d/segir-is-lenska-ha-skola-skrapa-botninn
Ráðherra bendir réttilega á að háskólarnir mættu vinna betur saman, en það er ekki stór skýring á vandanum. Laga þarf fjármögnunarlíkanið og ekki síst horfa til þess í hvaða átt beina þarf áherslum háskólanna m.a. styrkja rannsóknir og svo kennslu í STEM greinum (Science, technology, engineering og mathematics). Ráðuneytið og atvinnulífið þurfa að móta stefnu í háskólastarfi tengt stefnumótun í atvinnumálum.
Ráðherra nefndi að háskólarnir séu ekki samkeppnisfærir. Á sumum sviðum eru háskólarnir þó nokkuð samkeppnishæfir að mínu mati, en öðrum ekki.
Sökin á vandanum er því ekki síst ríkisins og atvinnulífsins nema HÍ sem fær einn háskóla gríðarlegan fjárhagslegan stuðning frá Happdrætti Háskóla Íslands, sem var eini háskólinn á Íslandi á þeim tíma. Ef verið væri að stofna sambærilegt happdrætti í dag færi ávinningurinn, sem byggir á einkaleyfi, áreiðanlega til allra háskólann í einhverjum hlutföllum.
Sem betur fer áttar Áslaug Arna ráðherra sig á vandanum sem endurspeglast m.a. í því að fjárframlög til háskóla eru ekki dregin saman á næsta ári heldur aukast í heildina litið um 2%, eitthvað mismunandi þó eftir háskólum og greinum sem endurspeglast væntanlega í því í hvaða greinum háskólarnir eru sterkir. Augljóst að ráðherrann hefur barist fyrir þessu í ríkisstjórn.
Sjá nánar frétt frá HR um málið. https://www.facebook.com/haskolinnireykjavik, þar sem fjallað er um árangur HR í samanburði við aðra háskóla.
Það er ljóst að fjármögnun stendur háskólum fyrir þrifum og þar þurfa
stjórnvöld að horfa í eigin barm.
Það hefur einnig gert háskólum erfiðara fyrir að menntaskólanámið hefur verið stytt um eitt ár án þess að grunnskólanámið hafi styrkst. Í grunnskólunum liggja vandamálin víða. Það er t.d. engin samkeppni eða fjölbreytni að marki og árangur þar langt í frá nógu góður og það vandamál flyst yfir á menntaskólastigið sem var svo stytt og færist svo enn frekar yfir á háskólastigið. Nemendur eru því ekki vel undirbúnir undir háskóanámið. Nú eru menntamál nemenda skipt á milli ráðuneyta, en vonandi næst að bæta grunn- og framhaldsskólamenntun og þar verði gert átak.
Heilt yfir var umræðan á Sprengisandi áhugaverð, en ekki nægilega skýr og djúp og eflaust erfitt um vik í svona stuttum þætti, en hlustandinn stendur eftir með neikvæða og yfirborðskennda og talsvert neikvæða sýn á háskólamálin. Ástæðulaust að tala háskólakerfið svona mikið niður, þótt vissulega sé samkeppnisstaðan erfið og háskólarnir vanfjármagnaðir. En þetta hefur sem betur fer, að mér skilst, ekki haft áhrif á nemendur. Umsóknir í háskólanám hér á landi er mikil hjá sumum háskólum og í mikilvægar og nauðsynlegar greinar meiri en nokkru sinni áður.