Blog Layout

Vagga velferðarþjónustu er hjá Reykjavíkurborg

thorkellsig@gmail.com

Það er ekki að ástæðulausu að fjölmargt hefur verið gagnrýnt í rekstri Reykjavíkurborgar, en þakka ber fyrir það sem vel er gert. Sviðstjórar og starfsfólk velferðarþjónustu hafa haldið borgarstjóra og borgarstjórn við efnið og mikilvægt að slá ekki slöku við.


Ekki hef ég heyrt háværar raddir um stjórnleysi eða almennar kvartanir um rekstur og þjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eins og í skólamálum, samgöngumálum og skipulagsmálum svo dæmi séu tekin. Nýlega fékk ég góða kynningu í öldungaráði á starfsemi velferðarsviðs, en þar eru samt áskoranir og tækifæri til að gera betur.   


Umfangsmikil starfsemi velferðarsviðs borgarinnar.

Starfsemi velferðarþjónustu borgarinnar er afar umfangsmikil, en þar eru 117 starfseiningar þar sem 77 þeirra veita sólarhringsþjónustu. Árið 2022 veitti velferðarsvið yfir 19.000 íbúum þjónustu sem er 4.6% aukning milli ára. Starfsmenn eru um 3.500 í 2.300 stöðugildum. Heildarútgjöld til málaflokksins voru 49 milljarðar árið 2022 sem er um fjórðungur útgjalda A-hluta reksturs borgarinnar, næst á eftir skóla- og frístundasviði.


Á ábyrgð bæði ríkis- og sveitarfélaga

Ríkið ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu, en sveitarfélög bera ábyrgð á félagsþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk, félagslegu húsnæði auk þess sem sveitarfélög bera ábyrgð á heimaþjónustu, félags- og tómstundastarfi o.fl. Árið 2009 þegar Guðlaugur Þór Þórðarson var heilbrigðisráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri var gerður tímamótasamningur þar sem Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga, tók að sér heimahjúkrun samkvæmt sérstökum samningi. Það hefur sparað ríkinu milljarða þar sem með samþættingu er rétt þjónusta veitt af réttum aðila á réttum tíma, en jafnframt bætt þjónusta við borgarbúa. Reykjavíkurborg sinnir hjúkrunarþjónustu fyrir ríkið allan sólarhringinn og kemur oft í veg fyrir að kostnaðurinn lendi af fullum þunga á heilbrigðiskerfinu.


Þjónusta við eldra fólk er vaxandi verkefni

Um 4.500 einstaklingar 67 ára og eldri fá þjónustu velferðarsviðs og þar vegur heimaþjónusta og heimahjúkrun mjög þungt. Um 13% íbúa Íslands eru núna 67 ára og eldri, en verða 20% árið 2050. Víðtæk þjónusta Reykjavíkur við eldra fólk léttir mikið undir með heilbrigðiskerfinu.  Verkefnið SELMA sem fór í gang hjá borginni árið 2020 er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og forða mögulega fólki frá innlög á bráðamóttöku vegna veikinda sem hægt er að meðhöndla heima.

 

Málefni fatlaðs fólks og barna

Málefni fatlaðs fólks tekur til sín mikla og vaxandi starfskrafta og fjármuni. Þegar sveitarfélögin tóku yfir þennan málaflokk árið 2011 hafði ríkið sinnt þessum málaflokki illa og hann var vanfjármagnaður. Síðan hafa einnig komið íþyngjandi reglur og verkefni t.d. í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og mikilvæg NPA þjónusta hefur orðið mun umfangsmeiri. Umkvartanir eru mestar þar sem fatlað fólk og ekki síst fötluð og langveik börn eiga hlut að máli. Þar þarf borgin að bæta sig. 


Gott starfsfólk og sviðsstjórar

Framþróun í þjónustunni í gegnum árin hefur veitt borginni forskot á hin sveitarfélögin og er það fyrst og fremst góðu starfsfólki og sviðstjórum velferðarsviðs borgarinnar að þakka. Sviðstjórar hafa haldið borgarstjóra og borgarstjórn við efnið enda allir haldið vel utan um sína starfsemi. Fyrst og fremsta vil ég nefna Láru Björnsdóttur sem á árunum 1995-2005 var frumkvöðull og baráttukona í að innleiða nútímalega velferðarþjónustu í borginni og hefur hlotið fjölda viðurkenninga á því sviði og mannréttinda, velferðar, félagsþjónustu og málefnum fatlaðs fólks.


Reykjavík - fremst Norðurlandanna í velferðartækni á sviði félagsþjónustu

Á sviði rafrænnar miðlunar er mikil þróun í gangi og í undirbúningi gangsetning öldrunarráðgjafar, fjarvöktun hjartabilunareinkenna, fjarstuðningur við líkamsrækt o.fl. Samkvæmt samantekt „Nordic Welfare Center“ þá sker Ísland, eitt Norðurlandanna, sig úr hvað varðar fjárfestingu við að innleiða velferðartækni í félagsþjónustu – þar er Reykjavíkurborg í forystu. Regína Ásvaldsdóttir f.v. sviðsstjóri velferðarsviðs á mikinn þátt í góðum árangri, en hefur nú tekið til hendinni á öllum sviðum sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Núverandi stjórnendur eins og Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri rafrænnar miðlunar hafa fylgt þessu eftir m.a. með velferðartæknismiðju.   


Áskoranir og tækifæri til að gera enn betur

Reykjavíkurborg má ekki missa forystu sína þegar kemur að  málefnum eldra fólks og tryggja að þeir fái sem besta heimaþjónustu og heimahjúkrun. Það dregur úr þörf á dýrum úrræðum innan Landspítala eða á hjúkrunarheimilum og eykur lífsgæði eldri Reykvíkinga. Tækifæri eru mikil í velferðartækni og rafrænni miðlun og þjónustu. Brýn þörf er aftur á móti á byggingu hjúkrunarheimila í borginni og óskiljanlegur og óábyrgur sá dráttur sem orðið hefur á því.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ávallt talað fyrir nýsköpun og stutt nýjar og notendavænum lausnir í velferðarþjónustu. Það verður gert áfram til hagsbóta fyrir alla borgarbúa sem þurfa á velferðarþjónustu að halda.   


Grein birt í morgunblaðinu 30. september 2023.


Þorkell Sigurlaugsson er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Deila

Share

Share by: