Eftir að hafa kynnst betur stjórnun Reykjavíkurborgar, hef ég sannfærst betur um hversu mikilla úrbóta er þörf. Borgaryfirvöld hafa misst stjórn á mörgum meginþáttum í rekstri borgarinnar og traust og tiltrú almennings hefur aldrei verið minni. Eitt dæmi af mörgum eru óafturkræfar breytingar á samgöngum og skipulagi borgarinnar, sem skerða munu lífsgæði íbúa og samkeppnishæfni atvinnulífs nái þær óbreyttar fram að ganga.
Umferðatafir kosta almenning og fyrirtæki tugi milljarða á ári
Það sem við upplifum daglega eru vaxandi umferðatafir og aukin orkusóun og mengun vegna þeirra. Þetta ástand mun bara versna á næstu árum. Ekki hefur verið staðið við úrbætur á fjölmörgum sviðum og vanmat er i gangi á mikilvægi bilsins fyrir almenning og fyrirtæki.
Í stað þess að hafa hægrisinnaðan borgaraflokk í leiðtogahlutverki, sitjum við uppi með „borgararlínuflokk“, sem hefur þrengt að bifreiðaumferð, sker niður bílastæði og hvetur til byggingu hábyggðra íbúðablokka við umferðagötur, helst þannig að fólk geti heilsað nágrannanum í næsta húsi með handabandi út um gluggann.
Borgarlína. Hvaða klisja er það?
Í framhaldi af undirritun Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hefur Reykjavíkurborg lagt áherslu á ákveðna útgáfa af borgarlínu, með miðjusettum akreinum og fækkun akreina og bifreiða.
Einu sinni var talað um að borgarlína yrði á teinum, svo var rætt um mismunandi farartæki á hjólum, en núna eru þetta lengri liðvagnar og styttri þegar með þarf og eru miðjusettir á flestum götum, akreinum fækkað og jafnvel bílaumferð alveg lögð af á sumum götum. Borgin fylgir þessu eftir með ríkisfyrirtækinu Betri samgöngur ohf. með beitingu skipulagsvalds, oft gegn mikilvægum samgöngubótum. Ekkert er hlutstað á þá sem hafa komið með hugmyndir um hagkvæmari útfærslu á borgarlínu og þöggun er í gangi.
15-20 ára bið eftir betri almenningssamgöngum
Borgarlína er eitthvað töfraorð sem búið er að innræta hjá mörgum, en uppbygging hennar tekur a.m.k 15-20 ár og kallar á uppskurð á stórum hluta vegakerfis höfuðborgarsvæðisins. Það mun almenningur, og reyndar varla Vegagerðin heldur, sætta sig við enda færu þarna forgörðum gríðarleg verðmæti í núverandi vegakerfi. Er þá ótalinn gríðarlegur óbeinn kostnaður sem þetta óráð mun valda með áralöngum umferðatöfum á öllum helstu samgönguæðum og erfiðleikum í snjómokstri.
Þá virðist talsverð upplýsingaóreiða vera til staðar um borgarlínuna. Framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. hefur sem dæmi nefnt að aðeins 20 mínútur muni taka að ferðast með borgarlínunni frá Keldnahverfi niður á Lækjartorg. Það verður að teljast afar ólíklegt miðað við þá hægferð sem borgarlínan mun keyra á og mikinn fjölda stoppistöðva.
Klárum samgöngumálin með hraði
Besta og einfaldasta leiðin að mati margra sérfræðinga á þessu sviði væri létt borgarlína sem snýst í megindráttum um að gera strætósamgöngur betri, m.a. með því að fjölga rauðum strætóakreinum hægra megin á akstursbrautum og fjölga ferðum. Fá betri og umhverfisvænni vagna, betri biðskýli og þjóna betur þörfum íbúanna. Þá tekur létta línan aðeins 3-5 ár i framkvæmd og með öllu því fjármagni sem sparast mætti fá hraðar mun betri almenningssamgöngur og afgreiðslukerfi sem afgreiddi farþega á augabragði og hægt væri að klappa fyrir. Einnig þarf að losa Miklubrautina við flest öll umferðaljós með 1-2 mislægum gatnamótum og stokkum eða göngum og málið er leyst.
Keldnalandið
Eitt af undarlegri skipulagsmálum í Reykjavík var að ríkisjóður afhenti Betri samgöngum ohf. 116 hektara Keldnaland og Keldnaholt til eignar og er það metið sem 15 milljarða framlag til samgöngusáttmálans. Þar sem ríkið á 75% í Betri samgöngum ohf. (annað í eigu sveitarfélaga, mest Reykjavíkur) var ríkisvaldið að afhenda landið að mestu sjálfu sér. Þurftum við enn eitt svona ríkisfyrirtæki?
Ríkið hefur falið þessu félagi, sem er með gamalgróna Sjálfstæðismenn sem formann og framkvæmdastjóra, að annast skipulag og sölu svæðisins í þágu núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík. Betri samgöngur ohf. ætla svo að græða sem mest á sölu landsins og nýta fjármunina sem fást til framkvæmda á hinum fokdýra samgöngusáttmála. Óttast má að skipulag svæðisins snúast mest um peningalegan gróða, en ekki skipulagshagsmuni borgarbúa.
Stjórnun snýst um að ávinna sér traust
Eitt það mikilvægasta í stjórnun er að ávinna sér traust. Traust og virðing íbúa Reykjavíkur til borgarstjórnar hefur dalað verulega samkvæmt nýjustu könnunum enda hafa loforð fyrir kosningar verið svikin; - þau umtöluðustu snúa að leikskólamálum, skipulagsmálum og samgöngumálum að ógleymdum fjármálum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkið þurfa hagkvæmar lausnir strax næstu árin og bráðnauðsynlegt er að endurskoða samgöngusáttmálann eins og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði til í sínum kosningaloforðum fyrir tæpu ári.
Boltinn er hjá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokknum að sækja fram og borgarbúar vita að aðeins einn flokkur getur breytt stöðunni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23.2.2023