Blog Layout

Skelfilegt ástand í samgöngumálum í Reykjavík

thorkellsig@gmail.com

Ætlum við að horfa uppá núverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur eyðileggja samgöngu- og skipulagsmál borgarinnar, svo vitnað sé í Einstein?

Við Reykvíkingar upplifum nú breytingar úr; „Borginni sem var“, í „Borgina sem enginn veit hvernig verður.“ Hvort sem litið er til samgöngumála eða skipulagsmála þá er unnið að róttækum breytingum, boðið upp á óvissuferð, þar sem íbúar eru ekki upplýstir, en eiga bara að fylgja með.

     Nær engar úrbætur hafa orðið á gatnakerfi Reykjavíkur síðustu 15 árin og er nú svo komið að ástandið er óbærilegt og á bara eftir að versna næstu árin. Allt er gert til að hægja á og tefja umferð ökutækja, fækka bílastæðum og hækka bílastæðagjöld óhóflega. Tilkostnaður fólks og fyrirtækja hækkar um tugi milljarða á ári vegna umferðatafa og dregið úr frelsi og lífsgæðum. Verið er að veikja samkeppnisstöðu sem greiðfærra og hagkvæma borg að búa í. Þakka má þó fyrir miklar úrbætur fyrir gangandi og hjólandi.


Stórgallaður Samgöngusáttmáli milli ríkis og sveitarfélaga frá 2019.

Vonir voru bundnar við „Sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu milli ríkis og sveitarfélaga“, frá 26.9.2019. Fljótlega komu gallar og vanáætlanir í ljós, en mikil þöggun og meðvirkni var samt framan af, t.d. í aðdraganda borgarstjórnarkosninga vorið 2022.

     Þöggunin var loksins rofin þann 16. mars í fyrra, þegar Vörður, fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hélt fjölmennan fund um Samgöngusáttmálann. Vilhjálmur Árnarson, alþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritari hans og þáverandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar alþingis upplifði að allir sem tjáðu sig lýstu miklum efasemdum um verkefnið og að endurmeta þyrfti sáttmálann. 


Gallarnir koma upp á yfirborðið

Í Morgunblaðinu þann 18.3 fyrir ári síðan, strax eftir áðurnefndan Varðarfund, birti Morgunblaðið á forsíðu áhyggjur Vilhjálms á sáttmálanum. Þar rifjaði hann upp athugasemdir við það ferli sem endurskoðun verkefnisins er í og átti að ljúka sem fyrst 2023, en er ekki enn lokið. Í fyrsta lagi er stjórnskipun sáttmálans flókin og skapar upplýsingaóreiðu. Í öðru lagi eru fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga óljós. Í þriðja lagi þarf að uppfæra allar áætlanir, hvað varðar fjárfestingar og framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru.

     Vegagerðin sá fljótlega að fresta þyrfti framkvæmd um tvö ár og kallað var eftir endurskoðun hans. Það koma sífellt óvæntir hlutir í ljós; kostnaðarsamur stokkur við Sæbraut. Óframkvæmanlegur stokkur við Miklubraut, arfavitlaus miðjusetning Strætólínu (kölluð borgarlína) á fjölmörgum stöðum samhliða helmingsfækkun almennra akreina og nú síðast gríðarlega hár og óvæntur kostnaður við Fossvogsbrú, þótt hugmynd um venjulega brú séu skynsamar og hagfelldar fyrir Fossvog og Vatnsmýrarsvæðið.


Plantað hafði verið „skógi ófjármagnaðra hugmynda“.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, lýsti því í hvassri grein í Morgunblaðinu þann 8. september sl. að við værum að; „Villast inn í skóg ófjármagnaðra hugmynda“ eins og hann orðaði það í fyrirsögn.

    Garðyrkjumennirnir sem vinna við verkefnið, svo áfram sé notuð þessi samlíking, eru allir týndir milli trjánna í sínum verkefnum og taka þátt í þögguninni svo þeir fái ekki borgarstjórnarvaldið gegn sér. Þrátt fyrir „skóg ófjármagnaðra hugmynda“ og afleitrar reynslu af fyrstu árum verkefnisins hefur alþingi ekki enn komið að málinu sem vekur furðu í ljósi hækkunar á áætluðum verkkostnaði úr 120 milljörðum í 300 milljarða króna.


Betri samgöngur ohf. standa ekki undir nafni.

Opinbera hlutafélagið Betri samgöngur ohf. (BS) var stofnað árið 2020 til að hafa umsjón með og stjórna framgangi Samgöngusáttmálans. Formaður og framkvæmdastjóri hins nýja félags sem áttu ekki að vera þekktir aðdáendur borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, vinna samt meðvitað eða ómeðvitað í anda hugsjóna núverandi meirihluta borgarstjórnar.

     Verkefni sem átti að klára á 15 árum er varla hafið þegar bráðum þriðjungur tímans er liðinn. Ekkert bólar á mikilvægum innviðaframkvæmdum eins og bættri stýringu umferðarljósa eða mislægum gatnamótum á mótun Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.


Keldnalandið afhent Betri samgöngum ohf. 

Ríkið afhenti BS eitt verðmætasta landsvæði í borginni, Keldnalandið og Keldnaholt, um 116 hektara. Ríkið eða matsmenn þess töldu landið 15 milljarða kr. virði. Nú hefur verið viðurkennt að landið er miklu verðmætara, en andvirðið fer í hítina við fyrirhugaða framkvæmd Samgöngusáttmálans.   

     Hlutverk BS er að ná sem mestum hagnaði út úr Keldnalandinu. Ekki er tekið tillit til þess hvað sé skipulagslega best fyrir Reykjavík og íbúa borgarinnar heldur á þetta allt að þjóna stefnumörkun um þétta byggð, nýjustu hugmyndir um bílastæðahús og Strætó sem treyst er á að flestir nýti.


Bráðaaðgerðir nauðsynlegar til að bæta samgöngur fyrir alla.

Endurskoða þarf Samgöngusáttmálann frá grunni, ekki eingöngu lengja í verkefninu og láta borgarbúa kveljast lengur.

     Mjög áhugaverðar hugmyndir eru fyrirliggjandi hvernig bæta má samgöngu- og skipulagsmál til skemmri og lengri tíma. Meira um það í annarri grein. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er einhuga í að vinna gegn þeim alvarlegu ágöllum sem eru á hugmyndum meirihluta borgarstjórnar í samgöngu- og skipulagsmálum. Við látum ekki grín Heimdallar um dauða Reykjavíkur og útför í Tjarnarbíó þann 20 febrúar sl. verða að veruleika. 

 

                           Þorkell Sigurlaugsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Deila

Share

Share by: